Back to All Events

DUO - trumpet and trombone

  • Safnahúsið á Húsavík/Husavik Museum 17 Stórigarður Húsavík, Norðurþing, 640 Iceland (map)

DÚÓ

Ólafur Elllið Halldórsson, trompet Aurora Rósudóttir Luciano, básuna

~ Prógram ~

                                       

Óþekktur höfundur (um 1400) Lamento di Tristano

Pierre Attaignant (1494-1552) Franskir hirðdansar

Magnus Thomsen (1562-1612) Trompettónlist

Romanus Weichlein (1650-1706) Verk fyrir tvo trompeta

Um efniskrá:

Dúóið leggja til efnisskrá sem leiðir áheyrendur um fornan hljóðheim evrópskrar hirðtónlistar frá 14.-17. öld. Þau munu kynna til leiks smækkaða mynd dæmigerðs blásturshljóðfærasamspils sem nefndist „alta cappella“ og samanstóð af hástemmdum hljóðfærunum sem voru gjarnan leikin við hátíðleg tilefni: fyrir dansi, í kirkjum og jafnvel vígvöllum. Til þess teljast m.a. endurreisnarbásúnur, trompetar, kornettó og skálmpípur, sem aðgreind voru frá lágstemmdari hljóðfærum á borð við flautur, lútur og strokhljóðfæri. Við sækjumst eftir því að veita áheyrendum innsýn í fjölbreyttar tónbókmenntir slíkra blásturshljóðfæra á aðgengilegan og líflegan hátt. Sérstæða tónleikanna felst engu að síður að einungis verður leikið á handgerðar eftirmyndir af upprunalegum hljóðfærum að sögulegri fyrirmynd. Elsta verkið er fengið úr handriti sem á uppruna sinn að rekja til Toscana um árið 1400 og var fyrst vitað til þess að vera í eigu Medici hefðarfjölskyldunnar á Ítalíu. Nú er handritið varðveitt í bresku þjóðarbókhlöðunni undir merkinu GB-Lbl Add. MS 29987 og er talin ein merkasta heimild um tónlist Ítalíuskagans á 14. öld. Kvæðadansinn Lamento di Tristano má túlka sem útskrifaðan spuna í anda þess sem blásturshljóðfæraleikaði gæti hafa leikið fyrir dansi. Í framhaldi verður leikin syrpa af dönsum úr safni Pierre Attaignant, afkastamikils tónlistarprentara sem umbylti tónlistarprentun í Evrópu með þróun nýs nótnaprents. Hann varð síðar nótnaprentari Frans I, og meðal bóka hans má finna ógrynni vinsælla dansa, sönglaga, og kirkjutónlistar sem einkennir tónlistarlandslag Frakklands í upphafi 16. aldarinnar. Frá Frakklandi ferðumst við til Danmerkur, þar sem finna má elstu heimildir um nótur fyrir trompet. Konungar töldust varla menn með mönnum á þessum tíma nema að hafa til ráða fjölda trompetleikara, sem sinntu mikilvægu hlutverki á vígvöllum sem og í embættagjörðum konungs. Fjöldi trompetleikara var til merkis um ríkidæmi hirðarinnar, en hirð Kristján IV. Danakonungs var meðal þeirra fremstu í Evrópu hvað tónlist varðaði. Þar sem atvinnutrompetleikarar lærðu, spiluðu og spunnu tónlist nær eingöngu eftir eyra hafa þessar elstu dönsku nótnabækur aðeins glósur að geyma. Meistararitgerð Ólafs Elliða snýst þó einmitt um að ráða úr slíkum glósum og spinna fjölradda trompettónlist að upprunalegri fyrirmynd. Að lokum verða leikin lög eftir austurríska tónskáldið Romanus Weichlein, sem gaf frá sér tónlistarsafnið Encaenia Musices árið 1695. Safnið var tileinkað Leópold I, keisara heilaga rómverska ríkisins og ætlað til flutnings fyrir kapellu keisarans. Meðal efni þess eru líflegir dúettar fyrir tvo trompeta, sem við munum þó leika á trompet og básúnu.

Flytjendur:

Aurora Rósudóttir Luciano, stundaði básúnunám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Oddi Björnssyni. Þaðan lá leiðin í Samtímalistaháskólann í Tilburg í Hollandi, í túlkun og sköpun þverfaglegra samtímalista með aðaláhersu á básúnuleik. Námið var styrkt af Minningarsjóði Lárusar Sveinssonar. Árið 2020 hóf hún nám við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í upprunaflutning endurreisnar- og barokktónlistar á söguleg hljóðfæri hjá Wim Becu (básúna) og Wouter Verschuren (tvíblöðungar). Aurora hefur komið fram á Íslandi á Óperudögum í Reykjavík, Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og Áramótatónleikum Kammersveitarinnar Elju. Hún hefur þó helst verið virkur flytjandi á sviði upprunaflutnings með kórum, hljómsveitum og kammerhópum í Hollandi, Þýskalandi og Belgíu. Þar hefur Aurora meðal annars komið fram á útvarpstónleikum Musikfest Bremen 2023, BachFestival Netherlands Bach Society, og Maria Tesselschade hátíðinni með hljómsveitinni La Sfera Armoniosa.

Ólafur Elliði Halldórsson, nam trompetleik hjá Ásgeiri H. Steingrímssyni við Tónlistarskóla Reykjavíkur til ársins 2019. Síðan þá hefur hann stundað nám við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag. Ólafur lauk bakkalárgráðu í klassískum trompetleik hjá Erwin ter Bogt árið 2023 og stundar nú áframhaldandi meistaranám í náttúrutrompetleik undir handleiðslu Susan Williams. Seinustu árin hefur hann þar að auki tileinkað sér frekara nám á sviði endurreisnar- og barokktónlistar á nokkuð sjaldheyrt hljóðfæri sem nefnist kornettó, eins konar blöndu af trompet og flautu, og sótt tíma hjá Nicholas Emmerson of Doron Sherwin. Ólafur hefur komið fram á Áramótatónleikum Hallgrímskirkju 2022, hátíðartónleikum Brasshóp Ýlis, tónleikaröð Musica Antica í Den Haag og með Barokkbandinu Brák.

WindWorks í Norðri er styrkt af:

Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins, Akureyrabæ, Tónskáldasjóði Rúv og Stef´s, Listamannalaunum og Lista- og menningarsjóður   Norðurþingi

Previous
Previous
2 August

DUO - flute and clarinet

Next
Next
3 August

SOLO - flute